Miðvikudagurinn 26. apríl

Saga garðsins

Húsdýragarðurinn

Ákvörðun um byggingu Húsdýragarðs í Laugardal var tekin af borgarráði Reykjavíkur þann 22. apríl 1986.

Markmið með byggingu hans var að kynna borgarbúum íslensku húsdýrin, færa þá nær íslenskum búskaparháttum og efla tengsl á milli manna og dýra.

Framkvæmdir við byggingu garðsins hófust árið 1989 og á einu ári voru reist sex hús til dýrahalds, steypt selatjörn, landslag mótað fyrir refi, minka og hreindýr, beitarhólf afgirt og komið upp fiskeldiskerjum. Auk þessa var Hafrafelli, gömlu íbúðarhúsi Örlygs Sigurðssonar listmálara, breytt í skrifstofu og kennslusalur útbúinn úr vinnustofu hans.

draupnir1 hreindyr

Í starfssemi Húsdýragarðsins er reynt að vera til fyrirmyndar og í vaxtarbroddi í dýravernd. Gert er ráð fyrir rúmlega tuttugu dýrategundum og er markmiðið að gera þeim dýrum sem lifa á Íslandi góð skil en þó með sérstaka áherslu á húsdýrin. Stefnt er að því að hafa fá dýr af hverri tegund og leitast við að sýna afbrigði, litbrigði, bæði kynin og afkvæmi þeirra.

Garðurinn hefur umsjón með Þerney í Kollafirði og er eyjan nýtt sem orlofsstaður fyrir dýr garðsins. Stefnt er að því að þau dýr sem að á annað borð eiga heimangengt fái a.m.k. jafnlangt sumarfrí og starfsmenn.

Húsdýragarðurinn var opnaður með viðhöfn af Magnúsi L. Sveinssyni forseta borgarstjórnar þann 19. maí 1990.


Fjölskyldugarðurinn

Það varð strax ljóst að gestir kunnu vel að meta þessa viðbót við mennigarstarfsemi borgarinnar. Í framhaldi af góðum viðtökum ákváðu borgaryfirvöld að byggja upp svæði við hlið Húsdýragarðsins þar sem fólki skyldi boðið upp á fjölbreytta þjónustu og aðstöðu til að verja saman tómstundum sínum. Þetta svæði fékk nafnið Fjölskyldugarður.

Það kom í hlut þáverandi borgarstjóra, Markúsar Arnar Antonssonar að taka fyrstu skóflustunguna að Fjölskyldugarðinum 24. ágúst 1991. Hugtökin sem lögð voru til grundvallar við uppbyggingu garðsins eru að sjá, að læra, að gera og að vera og eru þau tengd við lykilorð eins og fjölskylda, ævintýri og sögur, leikir og umhverfisvænar framfarir.

Hugmyndasmiðir og útlitshönnuðir svæðisins vildu að það skírskotaði til menningarsögu íslendinga. Því eru ýmis minni í garðinum tengd norrænni goðafræði og víkingatímabili þjóðarinnar. Má þar nefna víkingaskip, öndvegissúlur og þinghól sem líkir eftir gömlum þingstað auk nafngifta á svæðinu. Margar sögulegar tengingar sem voru á teikniborðinu í upphafi hafa enn ekki komið til framkvæmda.

fjoldi

Í Fjölskyldugarðinum er lögð mikil áhersla á umhverfismál og reynt eftir fremsta megni að notast við umhverfis-vænan búnað innan svæðisins, s.s. rafmagnsbíla og hjól. Garðurinn er fullur af ýmiss konar leiktækjum sem flest miðast við að gestirnir þurfi að gera sem mest sjálfir ásamt því að vera valin með öll aldurstig í huga.

Eftir að bygging Fjölskyldugarðsins hófst var tekin ákvörðun um að sameina hann Húsdýragarði og reka þessa tvo garða sem eina heild. Þeir eru stjórnunarlega ein eining og landfræðilega tengdir saman með brúnni Bifröst.

Tæpum tveimur árum eftir að fyrsta skóflustunga var tekin, þann 24. júní 1993, var nýja svæðið formlega tekið til notkunnar af borgarstjóra, Markúsi Erni Antonssyni, og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn tók til starfa.


Nýjungar síðan 1993

Síðan Fjölskyldu og húsdýragarðinum var hleypt af stokkunum hafa ýmsar nýjungar komið fram í starfseminni. Þar má helst nefna Vísindaveröld, Sjávardýrasafn safn framandi lífvera.

Vísindaveröldin hefur það markmið að kynna lögmál tækni og vísinda á lifandi hátt. Fólki gefst þar kostur á að fikta sig áfram í átt að skilningi með til þess gerðum tækjum og gera uppgötvanir af eigin raun. Vísindaveröld var formlega opnuð 7. júní 2002 af þáverandi menntamálaráðherra Tomas Inga Olrich.

Markmið Sjávardýrasafnsins eru að gera lífríki sjávar og vatna skil, með sérstakri áherslu á hafið umhverfis Ísland. Safninu er ætlað að vera miðstöð kynningar og fræðslu á þessu sviði fyrir öll skólastig með áherslu á miðlun þekkingar um lífríki sjávar og vatna.

Þegar Steinunn Valdis Óskarsdóttir borgarstjóri vígði safnið þann 1.desember 2004 voru þar 4 stór fiskabúr, tvö rúma 2000 lítra og það stærsta 5000 lítra auk 1700 lítra sexhyrnings. Í öll þessu búr rennur sjór sem kemur úr borholu Orkuveitu Reykjavíkur við Sæbraut en hann var leiddur inn í Laugardalinn sumarið 2004.

Þessar deildir hafa sameiginlega sýningaraðstöðu í 240m2 tjaldi við selatjörnina. Markmiðið er að byggja upp starfsemi Vísindaveraldarinnar og Lagardýrasafns í framtíðinni.

Árið 2008 voru flutt inn skriðdýr sem nú eru til sýnis í garðinum. Í framhaldinu hefur verið bætt í þetta safn ýmsum framandi lífverum, froskdýrum og skordýrum. Megintilgangur þessa safns er sá að gefa nemendum og gestum sem sækja garðinn heim tækifæri á að kynna sér framandi lífverur og vistkerfi.

 


Svæðið

Í dag er Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn á 91.660 m2 lóð. Í tillögum borgaryfirvalda að breytingu á deiliskipulagi fyrir Laugardal (frá 27.09. 2004) er gert er ráð fyrir stækkun Fjölskyldu og húsdýragarðs til vesturs með viðbótarlóð sem nemur um 24.000 m2 að stærð.

2012 settu borgaryfirvöld fram áætlun til 5 ára um uppbyggingu húsnæðis í garðinum til þess að bæta úr húsnæðisskorti garðsins. Húsnæðið sem er í garðinum hefur raunar alltaf staðið starfseminni fyrir þrifum, bæði vegna aldurs sumra húsanna sem og plássleysis í þeim.

Meðfram þeirri vinnu var deiliskipulagi garðsins breytt og nýjir byggingareitir skilgreindir innan núverandi svæðis.

Mottokuhus

2014 var hafist handa við byggingu nýs móttöku og miðasöluhúss sem tekið verður í notkun haustið 2014. Í framhaldi af þeirri byggingu verður byggt fræðslu, sýninga- og starfsmannahús. Þá standa vonir til þess að byggt verði yfir þá starfsemi á næstu árum sem nú er hýst í tjöldum.


Rekstur

Í dag heyrir rekstur garðsins undir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sem samþykkti nýtt skipurit garðsins 2011.

Rekstri garðsins er skipt í tvö svið - Þjónustusvið annars vegar og Rekstrarsvið hins vegar. Forstöðumaður ásamt stjórnendum sviðanna tveggja mynda framkvæmdastjórn garðsins. Undir Þjónustusviðið heyrir starfsemi sem snýr beint að gestum - dýrahald, fræðslustarf, veitingar ofl. En undir Rekstrarsvið heyra þeir þættir sem snú að innri rekstri garðsins s.s. viðhald og mannauðsstjórn.

Um 20 fastráðnir starfsmenn eru í vinnu allan ársins hring auk margra hlutastarfsmanna. Á sumrin er fjöldi starfsmanna mestur, þar sem Fjölskyldugarðurinn er einungis opinn yfir sumartímann.

 

Athugið

Ekki er leyfilegt að koma með gæludýr inn í garðinn.

Öll umferð hjóla, hlaupahjóla, skauta, hjólabretta og annarra slíkra farartækja er óheimil innan garðsins.

Pets are not allowed in the park.

Bicycles, scooters, skates, skateboards and other such vehicles are not allowed inside the park.

Skemmtimiðar

Skemmtimiðar 

1 miði 320 kr
10 miðar 2.550 kr
20 miðar 4.750 kr
Dagpassi 2.200 kr*

*Aðgangseyrir er ekki innifalinn í verði dagpassa.

Aðgangseyrir

Börn 0-4 ára - frítt
Börn 5-12 ára - 650 kr
13 ára og eldri - 860 kr
Öryrkjar - frítt
Ellilífeyrisþegar - frítt
 
Veittur er 10% afsláttur af aðgangseyri ef greitt er fyrir 10 eða fleiri í einu.
 
Einstaklingsárskort - 9.800 kr
Fjölskylduárskort - 19.200 kr
 
Plús* á Fjölskylduárskort - 9.800 kr hver plús 
*(Plús - bjóddu hverjum sem er með í garðinn)

Opnunartími

Opið er alla daga frá 10-17

 

Opnunartími Kaffihúss:

Virkir dagar: 10-16:30

Helgar: 10-16:30