Mánudagurinn 24. apríl

Snudduhornið í Fjósinu

Eins og margir gestir Fjölskyldu- og húsdýragarðsins eflaust vita er að finna upp á vegg í fjósinu horn af hreindýrstarfi þar sem snuddubörn sem ákveðið hafa að hætta með snuðin sín geta skilið snuðin eftir og gefið ungviði garðsins. Þessi siður kemur frá Skandinavíu en í nágrannalöndunum er notast við ýmiskonar tré utandyra. 

Á hverju ári safnast þó nokkur fjöldi af snuðum á hornin og hafa börn sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu sent snuðin með pósti og starfsfólk garðsins svo komið snuðunum á réttan stað í fjósinu. Allur gangur er á því hvernig börnin ákveða að gefa snuðin sín og sum skrifa stutta kveðju eða teikna mynd og setja með snuðunum. Í langflestum tilfellum er tekin mynd. Á sínum tíma var samin saga um Snudduhornið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem fylgir hér á eftir: 

Sagan um snudduhornið.

Einu sinni var lítill kálfur sem bjó í björtu fjósi með mömmu sinni og pabba og nokkrum öðrum kúm. Hann vissi það ekki sjálfur en hann bjó einmitt í Húsdýragarðinum.  

Kálfurinn var voða lítill þegar hann fæddist og gat ekki staðið en mamma hans sleikti hann vel og þurrkaði og hvatti hann til að standa á fætur. Loks tókst það og litli kálfurinn var ósköp svangur og langaði að fá mjólk að drekka. Hvar ætli ég fái nú mjólkursopa? hugsaði litli kálfurinn. Einmitt þá kom dýrahirðirinn sem hugsar um kýrnar með fullan pela af volgri mjólk sem mjólkuð hafði verið úr mömmu hans. Kálfurinn drakk og drakk og varð saddur en honum fannst samt eitthvað vanta. 

Einn daginn kom lítill strákur að skoða kálfinn. Hann klappaði kálfinum mjög blíðlega og talaði við hann. Ég heiti Skúli sagði strákurinn við kálfinn. Hvað heitir þú?Ég heiti nú bara kálfur því ég er svo lítill ennþá svaraði kálfurinn og lygndi aftur augunum því honum fannst svo gott að láta Skúla strjúka sér. En hvað er þetta annars sem þú ert með í munninum Skúli spurði kálfurinn og spenntist allur upp. Er þetta peli, ég er nefninlega að verða svangur. Nei, nei svaraði Skúli þetta er kallað snudda.  Æ, hvað ég vildi að ég ætti svona snuddu kjökraði kálfurinn. Skúla fannst leiðinlegt hvað kálfurinn var dapur og sagði Núna er ég orðinn svo stór að ég hætti bráðum að nota svona snuddu. Svo spurði Skúli mömmu sína og pabba hvort hann mætti ekki gefa kálfinum litla snudduna sína, hann væri hvort sem er eiginlega alveg hættur að nota hana. Þau fóru þá öll og töluðu við dýrahirðinn sem hugsaði um kýrnar sem fékk snudduna hans Skúla og geymdi hana. 

Svo um kvöldið þegar kálfurinn var búinn að fá mjólkina sína kom dýrahirðirinn með snudduna og þá uppgötvaði kálfurinn hvað það var sem honum hafði allaf fundist vanta ; það var einmitt svona snudda. Svo sofnaði hann sæll og glaður með snudduna sem Skúli gaf honum. Þegar hann fór út daginn eftir hitti hann nokkur lömb og sagði þeim hvað Skúli hafði verið góður að gefa honum snudduna sína. Og þó að lömbin fengju öll að drekka mjólk hjá mömmu sinni langaði þau líka að fá svona snuddu.  Mæður lambanna, ærnar, töluðu við dýrahirðana sem hugsa um dýrin í Húsdýragarðinum og fyrr en varði voru börn víðs vegar að búin að gefa lömbunum snuddur sem þau voru hætt að nota og allir grísirnir áttu líka fallegar snuddur. Að lokum varð að setja upp horn sem hreindýratarfurinn gaf til að geyma allar snuddurnar á. Dýrahirðarnir í Húsdýragarðinum láta öll dýr sem eru lítil og vilja fá snuddu, fá eina af horninu á kvöldin þegar þau fara að sofa.

Ef Skúli saknaði snuddunnar sinnar, hugsaði hann bara um litla kálfinn sem þótti svo gott að fá snuddu því hann var svo lítill.

 
 

Athugið

Ekki er leyfilegt að koma með gæludýr inn í garðinn.

Öll umferð hjóla, hlaupahjóla, skauta, hjólabretta og annarra slíkra farartækja er óheimil innan garðsins.

Pets are not allowed in the park.

Bicycles, scooters, skates, skateboards and other such vehicles are not allowed inside the park.

Skemmtimiðar

Skemmtimiðar 

1 miði 320 kr
10 miðar 2.550 kr
20 miðar 4.750 kr
Dagpassi 2.200 kr*

*Aðgangseyrir er ekki innifalinn í verði dagpassa.

Aðgangseyrir

Börn 0-4 ára - frítt
Börn 5-12 ára - 650 kr
13 ára og eldri - 860 kr
Öryrkjar - frítt
Ellilífeyrisþegar - frítt
 
Veittur er 10% afsláttur af aðgangseyri ef greitt er fyrir 10 eða fleiri í einu.
 
Einstaklingsárskort - 9.800 kr
Fjölskylduárskort - 19.200 kr
 
Plús* á Fjölskylduárskort - 9.800 kr hver plús 
*(Plús - bjóddu hverjum sem er með í garðinn)

Opnunartími

Opið er alla daga frá 10-17

 

Opnunartími Kaffihúss:

Virkir dagar: 10-16:30

Helgar: 10-16:30